Guðdómlegar Sollu-uppskriftir

Guðdómlegir grænir djúsar

Grænn epla djús
1 agúrka
4-5 sellerístilkar
2 græn epli
1 lime
2 cm engiferrót
Setjið allt í gegnum djúsvél, sigtið og berið fram í glösum með klaka. Ef þið eigið ekki djúsvél þá er hægt að setja allt í blandara + 1-2 dl af vatni og sigta síðan í gegnum spírupoka.


Agúrka + mynta = ummmm
1 agúrka, skorin í 2 og síðan fernt eftir endilöngu
4 sellerístönglar
6-8 myntustönglar (mjög auðvelt er að rækta myntu bæði útí garði og að hafa hana allan ársins hring í eldhúsglugganum)
1 lime, afhýtt
2-3 cm biti fersk engiferrót
setjið allt í gegnum djúsvél, sigtið og berið fram í glösum með klaka. Ef þið eigið ekki djúsvél þá er hægt að setja allt í blandara + 1-2 dl af vatni og sigta síðan í gegnum spírupoka.

Kál + sellerý = brill blanda
2 hnefar af káli, t.d. eitthvað gott frá Lambhaga eða öðrum lífrænum framleiðanda
3 sellerístilkar
1 stórt grænt epli
1 agúrka
4-5 myntustönglar
1 límóna, afhýdd
2-4 cm biti ferskur engifer
Setjið allt í gegnum djúsvél, sigtið og berið fram í glösum með klaka. Ef þið eigið ekki djúsvél þá er hægt að setja allt í blandara + 1-2 dl af vatni og sigta síðan í gegnum spírupoka.

Gulrót + agúrka = Ást
4 gulrætur
1 agúrka
1 grænt epli
2-5 cm biti fersk engiferrót
1 límóna, afhýdd
setjið allt í gegnum djúsvél, sigtið og berið fram í glösum með klaka. Ef þið eigið ekki djúsvél þá er hægt að setja allt í blandara + 1-2 dl af vatni og sigta síðan í gegnum spírupoka.

Grænn og guðdómlegur

1 agúrka
3 sellerístilkar
½ kálhöfuð, t.d. eikarlauf, lambhagasalat
1 hnefi ferskur kóríander
smá vatnakarsi
1 límóna, afhýdd
Setjið allt í gegnum djúsvél, sigtið og berið fram í glösum með klaka. Ef þið eigið ekki djúsvél þá er hægt að setja allt í blandara + 1-2 dl af vatni og sigta síðan í gegnum spírupoka.

Rauður og sterkur
1 rauð paprika
2-3 gulrætur
2 -5 cm ferskur engifer
1 rauður chilli, steinhreinsaður
1 límóna, afhýdd
Setjið allt í gegnum djúsvél, sigtið og berið fram í glösum með klaka. Ef þið eigið ekki djúsvél þá er hægt að setja allt í blandara + 1-2 dl af vatni og sigta síðan í gegnum spírupoka.

Hressandi hristingar - sætur sellerí
4-5 sellerístilkar
1 stórt grænt epli eða banani (má sleppa)
½ agúrka
½ fennelhnýði
smá mynta
smá ferskur engifer
½ límona, afhýdd
1 bolli vatn
½ avókadó eða 1-2 msk kókosolía eða kaldpressuð ólífuolía
Byrjið á að setja vatnið í blandarann, skerið síðan grænmetið í litla bita og setjið út í t.d. eina tegund í einu svo að blandarinn ráði við þetta, blandið síðan allt þar til verður silkimjúkt:*

Systir spíra – sprout si*star
stór hnefafylli af góðu káli, t.d. eikarlauf eða lambhagasalat
1 stórt grænt epli eða banani (má sleppa)
stór hnefi alfalfa spírur
½ búnt steinselja
½ agúrka
2 tómatar
2-5 cm ferskur engifer
1 bolli vatn
1 avókadó eða 1-2 msk kaldpressuð kókos- eða ólífuolía
Byrjið á að setja vatnið í blandarann, skerið síðan grænmetið í litla bita og setjið út í t.d. eina tegund í einu svo að blandarinn ráði við þetta, blandið síðan allt þar til silkimjúkt:*

Papriku blús ……
1 rauð paprika
2 gulrætur
smá epli, kjarnhreinsað
½ - 1 kúrbítur
1 grænt krydd, t.d. mynta eða steinselja eða ferskur kóríander eða….
½ - 1 límóna, afhýdd
2-5 cm ferskur engifer
vænn strimill söl
1 bolli vatn
1 avókadó eða 1-2 msk kaldpressuð kókos- eða ólífuolía
Byrjið á að setja vatnið í blandarann, skerið síðan grænmetið í litla bita og setjið út í t.d. eina tegund í einu svo að blandarinn ráði við þetta, blandið síðan allt þar til silkimjúkt:*

Sá græni
stór hnefi af grænu salati, t.d. grænkál eða eikarlauf eða lambhagasalat
2 sellerístönglar
½ - 1 agúrka
½ - 1 kúrbítur
1 stórt grænt epli
1 límóna/sítróna
2-5 cm ferskur engifer
söl eftir eigin smekk
1 bolli vatn
1 avókadó eða 1-2 msk kaldpressuð kókos- eða ólífuolía
Byrjið á að setja vatnið í blandarann, skerið síðan grænmetið í litla bita og setjið út í t.d. eina tegund í einu svo að blandarinn ráði við þetta, blandið síðan allt þar til silkimjúkt:*

Möndlumjólk

1 dl möndlur, lagðar í bleyti í 8-12 klst
4 dl vatn
Alt sett í blandara og blandað vel saman, sigtað og tilbúið, hægt að setja smá vanillu eða kanilduft og 2-4 döðlur útí
grænn berjahristingur
1 dl vatn
4 dl frosin hindber eða jarðarber
1-2 banani
1/2 - 1 hnefi grænkál, spínat, eikarlauf, lambhagi eða annað grænt

Sejið allt í blandara og blandið þar til silkimjúkt.

Sá suðræni

1 dl. vatn
150 g ferskur ananas, afhýddur
8-10 jarðaber, frosin eða fersk
100 g frosið eða ferskt mangó
1 banani
5 myntulauf
Allt sett í blandara og blandað vel saman

Blár og basík
l möndlumjólk
4 dl frosin bláber
1 banani
1 cm engiferrót, afhýdd
Allt sett í blandara í uppgefinni röð og blandað saman.

Mojito
250 ml kókosvatn (dr.Martins)
1-1 ½ límóna, afhýddar
6 myntustönglar
2-3 cm biti engiferrót
2 msk agavesýróp eða 3-4 döðlur
Allt sett í blandara og blandað, sigtað síðan í gegnum spírupoka, borið fram með klökum í fallegu glasi.

Hollir hristingar
Við getum lesið okkur óendanlega mikið til um hollustu og góða næringu. En viska okkar dugar skammt ef ekki fylgir framkvæmd. Galdurinn við þessa hollustu sjeika er að prófa þá.

Hugmyndin er einföld:
Að blanda saman ávöxtum með grænu káli (spínati, klettasalati, rauðbeðju, grænkáli, eikarlaufi, lambhagasalati svo eitthvað sé nefnt) og útkoman eru bragðgóðir og hrikalega hollir hristingar.

Hér er einn einfaldur til að byrja á:
250 ml vatn
2 ½ dl fersk eða frosin bláber (eða hindber eða jarðarber)
2-3 þroskaðir bananar (eða mangó eða epli eða ananas)
1 eða 2 vænir hnefar af grænu káli
Setjið í blandara og blandið – bætið meira vatni útí ef þið viljið hafa hann þynnri.

*bragðgóðir – grænir sjeikar eru mjög bragðgóðir. Og þú hefur allt með bragðið að gera – ef þér finnst bragðið of grænt þá bætirðu bara útí meiri ávöxtum og ef þér finnst það of sætt þá bætirðu útí meira af grænu.

*fljótlegir – það tekur bara nokkrar mínútur að búa til góðan grænan sjeik, sem að auki getur verið bæði heil máltíð, létt milli máltíð eða drykkur.

*lítill undirbúningur – þegar þú hefur gert þínar tilraunir og fundið “þitt bragð” þá er eftirleikurinn auðveldur.

*ávinningur – það sem mér finnst mesti ávinningurinn er að grænn sjeikur slær á fíkn í sætindi og unnin kolvetni og annað sem gerir kroppinn bara stærri.

*næringarbomba – það er auðvelt að setja alls konar hollustu út í sjeikinn og gera hann ennþá hollari. T.d. smá söl, spirulinu, alfalfa spírur, maca duft (leyndarmál Inkanna fyrir eilífri æsku) alls konar þurrkað grænt duft, hörfræolíu eða kókosolíu svo eitthvað sé nefnt.

Salatii breytt í sjeik
Mörgum langar til að borða meira af grænmeti og ávöxtum en finnst þeir þá þurfa að sitja og tyggja allan daginn. Ég bý mér oft til stóra skál af salati, borða kannski helminginn og set svo restina í blandarann og er þar komin með ótrúlega fínan grænan sjeik ásamt því að nýta allt salatið. Einnig er þetta alveg upplagt ef það er afgangur af salatinu frá kvöldinu áður, þar sem þið eruð búin að nota bara lífrænt og flott hráefni í það
Hér kemur uppskrift af salati fyrir ykkur sem viljið prófa að skutla því í blandarann og drekka það í stað þess að sitja og tyggja og tyggja og tyggja.


Salat fyrir blandara – fyrir 2
2 tómatar, skornir í fernt
½ agúrka, skorin í nokkra bita
½ rauð paprika
safi úr ½ sítrónu
1 hnefi grænt kál
½ búnt ferskur kóríander eða steinselja eða annað grænt krydd
3 sellerí stilkar, skornir í 1 cm bita
ca 10 cm biti söl
smá agave sýróp eða 2-3 döðlur eða 1 epli
1 lítið avókadó, afhýtt og steinhreinsað
Byrjið á að setja tómata, agúrku, papriku og sítrónusafa í blandarann og blandið smá stund, bætið öllu nema avókadóinu útí og blandið, endið á að setja avókadóið útí og blandið þar til silkimjúkt.

Hýðishrísgrjón – grunnuppskrift (glútenlaust)
1 bolli hýðishrísgrjón
2 bollar vatn
sjávarsalt, tamarisósa eða himalayasalt
Skolið hrísgrjónin og setjið þau í pottinn ásamt vatni og smá sjávarsalti, látið suðuna koma upp og þau bullsjóða í ca 5 mín – lækkið og látið sjóða í ca 30 – 45 mín eða þar til hrísgrjóninn hafa sogið í sig allan vökvann, slökkt undir látið standa í 10 mín. Tilbúið

Hirsi – grunnupskrift (glútenlaust)
1 dl hirsi
2 dl vatn
Smá sjávarsalt, tamari eða himalayasalt
Skolið hirsið og setjið í pott með vatni + salti, suðan látin koma upp, sjóðið í um 20-25 mín - slökkt undir og hirsið látið standa í um 10 mín. Tilbúið.

Soðið kínóa (quinoa) (glútenlaust)
1 dl kínóa
2 dl vatn
smá himalaya eða sjávarsalt
Skolið kínóað, setjið í pott með vatni og salti, látið suðuna koma upp og sjóðið í um 20 mín við lægst hita sem viðheldur suðu, slökkvið undir og látið standa í 5-10 mín. Tilbúið.

Bankabygg grunnuppskrift
1 dl bankabygg
2 ½ vatn
smá sjávarsalt
Skolið bankabyggið, setjið í pott með vatni og smá sjávarsalti, látið suðuna koma upp og sjóðið í um 30-40 mín eða þar til bankabyggið er soðið, látið standa í um 10 mín. Tilbúið.

Soðnir heilir hafrar
1 dl heilir hafrar
2 ½ dl vatn
smá sjávarsalt
Skolið hafrana, setjið í pott með vatni og smá sjávarsalti, látið suðuna koma upp og sjóðið í 45-60 mín eða þar til hafrarnir eru soðnir, látið standa í um 10 mín. Tilbúið.

Baunir eru trefjaríkar + örva og bæta meltinguna + fitusnauðar + próteinríkar + kaliumríkar + bætiefnaríkar + b1 + b2 + kalk + magnesium + járn + sink + kólesteróllausar.
Meðhöndlun:

1. Skolið baunirnar og leggið í bleyti í 8-15 klst - 1x baunir og 4x vatn
- linsur í um 8 klst – allar aðrar baunir í um 15 klst
2. Setjið 10 cm strimil af stórþara (Kombu) útí vatnið til að draga úr vindgangi + 1 tsk matarsóda (1 tsk pr 200g baunir)
3. Skiptið um vatn og skolið baunirnar áður en þær eru soðnar
- má setja matarsóda í suðuvatnið líka ef þið eruð mjög viðkvæm
4. Vatnsmagn við suðu: látið vatnið rétt fljóta yfir baunirnar (um 2 cm)
5. Baunirnar eru tilbúnar þegar þær merjast auðveldlega milli tveggja putta
6. Slökkvið undir baununum, saltið og látið standa í 10 mín.
Það er hægt að frysta allar baunir, soðnar og útbleyttar, upplagtað sjóða slatta og eiga alltaf til í frystinum í passlegum skömmtum.

Algengar baunir
Aduki baunir – suðutími 1 ½ klst
Augnbaunir – suðutími 1 klst
Kjúklingabaunir – suðutími 1 ½ klst
Nýrnabaunir – suðutími 1 ½ klst
Linsur brúnar – suðutími 40 mín
Linsur grænar – suðutími 25 mín
Linsur rauðar – suðutími 20 – 25 mín

Baunir eru góðar í:
buff, pottrétti, salat, súpur, álegg, kæfur, baunasalat, láta spíra, meðlæti, marineraðar t.d. í olíu og hvítlauk o.fl. til að drýgja kjöt.

Vindgangs-“eyðir”
Fennel og cuminduft minnka vindgang, líka að setja smá edik útí suðuvatnið. Einnig að fleyta af froðuna sem myndast við suðuna. Leggja alltaf í bleyti, skola og skipta um vatn áður en soðið er. Nudda hýðið af baununum eða fjarlægja það á annan hátt eftir suðu. Setja 1 msk af matarsóda í útbleytivatnið, má sjóða með – mikið minni vindgangur og baunirnar verða jafnsoðnar.

Soðinn grautur – grunnuppskrift
1 dl heilt korn eða grjón (heilir hafrar, bygg, kínóa, hirsi, hrísgrjón o.fl.)

3-4 dl af vatni
smá krydd, t.d. kanill, vanilla, kardimomma, engifer …….
1 dl þurrkaðir ávextir eða 2 dl ferskir
Setjið allt í pott að kvöldi til, látið suðuna koma upp, lækkið hitann og látið sjóða við vægan hita í um 10 mín. Slökkvið undir, látið pottinn standa á hellunni yfir nóttina, hitið upp næsta morgun. Góður með möndlumjólk eða einhverri annarri mjólk útá.

Hrísgrjónabollur – heitar eða kaldar
3 dl soðin hýðishrísgrjón
½ dl sesamfræ
Skolið hendurnar upp úr köldu saltvatni og hnoðið hrísgrjónin saman í litlar bollur. Bollunum er velt upp úr sesamfræjum, sumum finnst gott að þurrrista sesamfræin fyrst á þurri pönnu. Einnig má pakka þessum bollum inn í nori þara. Þetta er þægilegur matur að nota sem nesti í vinnuna eða í sumarbústaðinn. Ef geyma á bollurnar í nokkra daga er gott að setja ¼ Umeboshi plómu í miðja bolluna, það virkar eins og rotvarnarefni og léttir þar að auki meltinguna. Hægt að djúpsteikja.

Nori rúllur
4 blöð nori þari
3 msk myso þykkni eða sinnep
6 dl soðin hýðishrísgrjón
2 dl alfalfa spírur
1 avókadó, skorið í sneiðar
1 rauð paprika, skorin í þunna strimla
Leggið blað af nori þara á bambusmottu (látið glansandi hliðina snúa niður). Smyrjið smá mysomauki á 1/3 hluta af nori blaði (þann sem er næst ykkur) t.d. með því að nota sleikju eða bakhliðina á teskeið setjið síðan ½ cm þykkt lag af soðnum hrísgrjónum og dreifið úr þeim með sleikju. Þar næst setjið þið spírur, avocado og paprikusrimla ofaná. Rúllið með föstum og öruggum handtökum, lokið rúllunni með því að væta endann með smá vatni svo rúllan límist betur saman. Skerið í 6-8 bita hverja rúllu. Berið fram með tamarisósu sem búið er að rífa útí smá ferska engiferrót og jafnvel wasabi:
1 dl tamarisósa + 1 tsk fersk rifin engiferrót + smá wasabi
hrært saman.

Bygg- og hnetubollur

5 dl soðið bygg eða annað korn/grjón
2 gulrætur, rifnar
1 msk timian
1 tsk karrý duft eða mauk
1 tsk grænmetiskraftur
150 g rifinn sojaostur eða tofu eða kartöflur
150 g malaðar heslihnetur eða aðrar hnetur
2-3 msk mango chutney eða frosið mangó
Smá himalayasalt/sjávarsalt og nýmalaður pipar
ferskt grænt krydd að eigin vali
Setjið allt í matvinnsluvél eða í hrærivélaskál og hrærið saman, mótið litlar bollur og bakið í ofni 200C í 8-12 mín (þetta fer þó eftir stærðinni á bollunum)

Kínóa/hirsi ofnréttur
2 dl kínóa/hirsi eða annað korn
4-5 dl sjóðandi vatn
2-3 msk hnetusmjör
1 msk jurtakraftur
1 sæt kartafla, afhýdd og skorin í bita
2 dl sellerírót eða kúrbítur
2 dl fínt skorið hvítkál (gott að mýkja það aðeins upp úr ristaðri sesamoliu eða kaldpressaðri kóksolíu fyrst)
1-2 msk kaldpressuð kókosolía
1 dl graskerjafræ
1 dl möndlur
½ dl kókosmjöl
ferskur kóríander til að klippa yfir
Kveikið á ofninum og stillið á 250C, þvoið kínóað/hirsið og setjið í eldfast mót. Blandið saman vatni + hnetusmjöri + jurtakrafti og hellið yfir kornið. Setjið síðan sætar kartöflur + sellerírót/kúrbít + hvítkál oná, setjið inn í heitan ofninn og bakið við 250C í 25 mín. undir loki, takið lokið af, stráið fræjunum yfir + smá klípu af kókosolíu og látið vera í 5 mín í viðbót. Skreytið með einhverju fersku og grænu t.d. steinselju eða kóríander eða öðru.

Hirsikrókettur
3 dl nýsoðið hirsi (1 ½ dl hrisi soðið í 3 dl vatni í 25 mín)
1 rifin gulrót
1 dl rifin sellerírót
1 hvítlauksrif, pressað – má sleppa
1-2 tsk grænmetiskraftur
1 tsk tamarisósa og nýmalaður pipar
sesamfræ til að velta uppúr
kaldpressuð kókosolía til steikingar
Best er að hafa hirsið nýsoðið, þannig er auðveldast að eiga við það, allt er sett í hrærivél og hrært vel saman, hitið kókosolíuan á pönnu, mótið krókettur og steikið á pönnu þar til þær verða gylltar.

Kínóa og kjúklingabaunabuff
2 dl soðið kínóa eða annað korn/grjón
1 dl soðnar kjúklingabaunir
½ búnt smátt söxuð steinselja eða annað grænt krydd
2 msk tómatpúrré
1 msk karrý
1 msk góð kryddblanda frá pottagöldrum t.d. grísk eða….
smá sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar
Setjið allt í hrærivél og hrærið vel saman, notið kúluskeið við að móta borgarana, setjið þá á bökunarpappír í ofnskúffu, bakið í ofni við 200C í um 15 mín, einnig er hægt að steikja þá upp úr kókosolíu, nokkrar mín á hvorri hlið.

Kasjúsósa – frábær með buffum
100g kasjúhnetur, lagðar í bleyti í um 2 - 4 klst
¾ tsk þurrkað dill eða 2 msk fersk
¾ tsk ítölsk kryddblanda
¾ tsk laukduft
¾ tsk salt
2 msk nýkreistur sítrónusafi
½ dl vatn (smá meira ef ykkur finnst þurfa)
Hellið vatninu af kasjúhnetunum og setjið þær í blandara ásamt restinni af uppskriftinni. Blandið þar til allt er silkimjúkt. Geymist í viku í loftþéttu íláti í ískápnum. Þessa ídýfu hef ég gert í mörg mörg ár og flestir hafa haldið að þetta væri eitthvað keypt majonesdót.

Sojamjólk
1. 1 b sojabaunir lagðar í bleyti í 1 ltr af vatni í 15 klst
2. Hellið vatninu af og skolið baunirnar og setjið þær í skál
3. Setjið 1 b af baunum og 1 b af vatni í blandara og maukið í svona 2 mín, setjið þessa blöndu síðan í pott
4. Endurtakið þar til búið er að mauka allar baunirnar
5. Bætið 6 b af vatni útí pottinn og látið suðuna koma upp, það borgar sig að hræra stöðugt í þar sem þetta brennur auðveldlega
6. Þegar suðan er komin upp er hitinn lækkaður og þetta látið sjóða í 10-15 mín (ég hræri í allan tímann)
7. Setjið sigti í skál og viskastykki eða grisju þar ofaní, ausið blöndunni úr pottinum yfir í skálina og sigtið allan vökvann (sojamjólkina) frá hratinu (okra)
8. Hægt er að hella 2 b af hreinu köldu vatni í lokin yfir hratið til að nýta algjörlega allt úr baununum
9. Best er að geyma mjólkina í ísskáp, en einnig er hægt að frysta hana, ég frysti hana gjarnan í klakaboxi

Möndlumjólk:
1 dl möndlur, lagðar í bleyti yfir nótt (8-12klst)
2 ½ - 4 dl vatn
Allt sett í blandara og blandað vel saman í um 2-5 mín, gott að taka smá pásu fyrir blandarann. Sigtað – best í gegnum sérstaka nælonpoka eða nælonsokk til að losna við “kornið”. Því meira vatn því þynnri verður mjólkin. Hægt er að setja 2-3 döðlur eða smá agave sýróp eða banana útí til að gera mjólkina sæta. Best er að sigta mjólkina fyrst og setja sætuna síðan útí.

Kasjúmjólk
1 dl kasjúhnetur
4 dl vatn
smá vanilluduft/dropar
allt sett í blandara og blandað vel saman í svona 1-2 mín.

Sesammjólk fyrir 1
1 msk hvítt tahini 2 dl vatn1-2 tsk agave sýróp eða 1-2 döðlur
Setjið allt í blandara og blandið vel saman, tilbúið. Sesammjólkin er sérstaklega kalkrík og hjálpar kroppnum að minnka sykurlöngunina.

Hummus
300 gr soðnar kjúklingabaunir (hægt að nota lífrænar úr krukku)
½ búnt steinselja
2 msk hvítt tahini
½ dl sítrónusafi
1 msk tamarisósa
smá cuminduft
smakkað til með smá sjávarsalti
1 msk kaldpressuð ólífuolía
150 gr ósoðnar baunir eru lagðar í bleyti yfir nótt í 1/2 ltr af vatni - skipt um vatn og soðið í ca 1-1 ½ klst. setjið kjúklingabaunir + steinselju í matvinnsluvél og maukið, bætið tahini + sítrónusafa + tamarísósu út í og maukið þar til silkimjúkt, bragðist til með cumindufti og sjávarsalti.


Grænmetiskæfa

2 dl sólblómafræ lögð í bleyti í 4-6 klst (verður um 4 dl)
2 msk tahini
1-2 msk tamarisósa
½ dl sítrónusafi
2-3 dl smátt skorin steinseljurót
smá cayenne pipar
1 hnefi af fersku grænu kryddi ef vill
1 msk af næringargeri ef þið eigið það til

Allt sett í matvinnsluvél og maukað vel saman eða þar til silkimjúkt.

Tahinisósa
150 ml hvítt tahini
150 ml vatn
80 ml sítrónusafi
½ tsk himalayasalt
30g steinselja eða ferskur kóríander
Allt nema steinselja/kóríander sett í matvinnsluvél eða blandara og blandað þar til silkimjúkt, steinseljan/kóríanderinn sett útí og blandað í nokkrar sek. í viðbót.

Súpan góða fyrir 8-10 manns
2 msk kaldpressuð kókosolía
2 msk curry paste (ég nota frá Pataks = mild currypaste coriander & cumin - fæst í Hagkaup Kringlunni)
2 msk gott mangó chutney eða nokkrar smátt saxaðar döðlur
1 msk tómatpúrra
5-700gr niðurskorið allskonar grænmeti (1 sæt kartafla + 1 gulrót + smá blómkál + smá sellerírót + nokkrar kartöflur)
2 dósir kókosmjólk
600ml vatn
smá biti fersk engiferrót, afhýdd (2-3 cm)
2 limelauf (fæst í Tiger og Asíubúðum)
10 cm biti sítrónugras (fæst í Hagkaup + Tiger + Asíubúðum)
smá biti ferskur chili - stærð fer eftir því hvað þú vilt hafa súpuna sterka/milda
1 tsk grænmetiskraftur
smá salt
½ búnt ferskur kóríander
Setjið kókosolíu í pott og bætið grænmetinu + currypaste + tómatpúrru + mangó chutney útí, hellið kókosmjólk + vatni útí ásamt grænmetiskrafti + engifer + limlauf + sítrónugrasi + ferskur chili útí, látið sjóða í 15-20 mín, smakkið til með salti og pipar og klippið ferskan kóríander yfir.

Indverskur pottréttur
2 dl lífrænar þurrkaðar kjúklingabaunir, lagðar í bleyti, með 1 tsk matarsóda og kombústrimli, í 15 klst og soðnar í 1 1⁄2 klst
300g kartöflur, skornar í bita og bakaðar í ofni í smá kókosolíu + vatn + salt + paprikuduft + cuminduft
1 dós kókosmjólk eða vatn eða 50/50 kókosmjólk + vatn
1- 2 tsk karrý paste
2 cm biti engiferrót
smá salt
smá ferskur kóríander
Sjóðið kjúklingabaunirnar og bakið kartöflurnar, setjið kókosmjólk + karrý paste + engifer + salt í blandara og blandið vel saman, setjið soðnar kjúklingabaunir + bakaða kartöflubita + kókosmjólkurblönduna í pott og látið malla í um 10 mín. Klippið ferskan kóríander yfir.

Speltpenne í heimagerðri pestósósu
450 gr speltpenne
100g soðnar kjúklingabaunir
50 gr ferskt basil
25 gr furuhnetur, þurrristaðar á pönnu eða í ofni
25g kasjúhnetur, þurrristaðar á pönnu eða í ofni
2 msk sítrónusafi
½ - 1 dl græn ólífuolía
smá sjávarsalt og cayenne pipar
1 msk næringarger ef þið eigið það til
Setjið penne út í sjóðandi vatn og sjóðið samkvæmt leiðbeiningunum á pakkanum, á meðan það sýður setjið hvítlauk, ferskt basil, hnetur og sítrónusafa í matvinnsluvél, maukið í smá stund og bætið svo ólífuolíu út í og bragðið til með sjávarsalti og cayennepipa, hellið vatninu af pastanu, setjið það í skál ásamt kjúklingabaununum og blandið pestóinu saman við.

Sólþurrkað tómatapestó
75-100g sólþurrkaðir tómatar, lagðir í bleyti yfir nótt
1 tsk límónusafi
10 basil lauf - hægt að nota steinselju eða annað grænt
150 ml kaldpressuð ólífuolía
100g möndlur, þurrristaðar og gróf malaðar (t.d. í matvinnsluvél)
smá himalaya salt
Setjið allt nema möndlur í matvinnsluvél og blandið vel - bætið möndlunum útí og blandið stutt, mér finnst betra að hafa þetta ekki algjört mauk, kryddið með smá salti. geymist í gamaldags sultukrukku (þessum með appelsínugulu "þétti teygjunum") í allt að mánuð í kæli.

Rófusnakk
1 meðalstór rófa
Rófan er afhýdd og rifin á rifluðu rifjárni. Ég nota rifjárn frá Saladmaster en það er hægt að nota ýmsar tegundir og ef þið eigið ekkert slíkt þá bara notið ostaskerann sem rifjárn til að búa til flögurnar.

Snittubrauð
2 dl gróft spelt
2 ½ dl fínt spelt
1 msk vínsteinslyftiduft
½ tsk salt
1 dl döðlur, skornar í litla bita
2 ½ dl sjóðandi vatn
1 msk sítrónusafi
Smá sesamfræ og spelt til að velta uppúr
Hitið ofninn í 180°C, blandið þurrefnunum saman í skál + döðlunum, hellið vatni og sítrónusafa útí og hrærið þessu saman, setjið í smurt form (gott að strá sesamfræjum inn í það) eða kúlið deigið með ískúluskeið á plötu eða ofnskúffu og þá verða þetta bollur, bakað við 180°C í um 35 – 40 mín.

Marinerað spergilkálssalat
2 dl spergilkál, skorið í blóm í passlega stórum munnbitum
2 dl blómkál í litlum bitum
3 gulrætur, skornar á ská & svo í strimla
½ dl ólífuolía, kaldpressuð
2 msk ferskur sítrónusafi
1 msk tamarisósa
1 msk fínt saxaðar ferskar kryddjurtir, t.d. basil, kóríander, timian, rósmarin, sítrónumelissa, mynta, steinselja, dill, oreganó, kerfill – þú velur hvað þér finnst best.

Skerið grænmetið í bita & setjið í skál, hellið ólífuolíunni, sítrónusafanum & tamarísósunni yfir & látið marinerast í 10 – 30 mín
þetta salat passar vel með öllum mat bæði kjöti, fiski & grænmeti.

Kókoskúlur
100 g kókosmjöl
100 g hnetur, t.d. hesli eða möndlur eða bara……
30 g hreint kakóduft
250 g döðlur
1-2 msk kaldpressuð kókosolía
Allt sett í blandara, blandað þar til þetta hangir vel saman. Mótið litlar kúlur sem gott er að velta upp úr kakódufti - geymast best í frysti eða ísskáp.

Til baka

Póstlisti
Skráðu netfang þitt hér að neðan
 

Magabandsdáleiðsla er ein góð leið til þess að létta sig.

Kynntu þér málið.